Gerast áskrifandi

Index: 0

Mikil umsvif hjá dótturfyrirtæki Hampiðjunnar á Írlandi

15.10.2014

Mikil umsvif hjá dótturfyrirtæki Hampiðjunnar á Írlandi

Meðal góðra gesta á nýafstaðinni sjávarútvegssýningu í Kópavogi voru Martin Howley stjórnarformaður og Evelyn Cassidy framkvæmdastjóri frá írska veiðarfæraframleiðandanum Swan Net Gundry Ltd. sem er með höfuðstöðvar í Killybegs á vesturströnd Írlands. Fyrirtækið, sem varð til við samruna Swan Net Ltd. og veiðarfæraframleiðandans Gundry´s Ltd., hefur verið dótturfyrirtæki Hampiðjunnar síðan haustið 1999.

Samkvæmt upplýsingum Evelyn Cassidy starfa nú alls rúmlega 60 manns hjá Swan Net Gundry og fyrirtækið hefur yfir að ráða rúmlega 4.000 fermetra aðstöðu.
Að sögn þeirra hittast framkvæmdastjórar fyrirtækja innan Hampidjan Group a.m.k. einu sinni á ári til að bera saman bækur sínar. Því var tækifærið notað nú til þess að heimsækja Íslensku sjávarútvegssýninguna, hitta aðra stjórnendur og ræða við viðskiptavini sem sóttu sýninguna heim.

SwanNet-Company

Stærsti veiðarfæraframleiðandi Írlands

Swan Net Gundry er stærsti veiðarfæraframleiðandi Írlands og að sögn Martin Howley eru verkefnin ærin.
,,Við framleiðum aðallega flottroll fyrir uppsjávarveiðiflotann en einnig botntroll og þau eru framleidd á netaverkstæði okkar í Castletownbere á suðvestanverðu Írlandi,“ segir Martin Howley en þess má geta að fyrirtækið er einnig með þjónustustöðvar á Hjaltlandi, í Fraserburgh í Skotlandi, Rossaveal og Skibbereen á Írlandi og í Gloucester í Bandaríkjunum.
Töluvert hefur verið um sölur á veiðarfærum til útgerða uppsjávarveiðiskipa utan heimamarkaðarins s.s. á austurströnd Bandaríkjanna og einnig til Namibíu og Suður-Afríku. Af öðrum löndum sem Swan Net Gundry hefur selt veiðarfæri til má nefna Danmörku, Noreg, Nýfundnaland, Ástralíu, Sádi-Arabíu, Spán, Guatemala og Argentínu.

Öflugur floti uppsjávarveiðiskipa

Írar gera út einn öflugasta flota upppsjávarveiðiskipa í Vestur-Evrópu og þótt víðar væri leitað. Frá Írlandi er nú gerð út 26 stór uppsjávarveiðiskip og þar af eru 20 með heimahöfn í Killybegs. Þennan flota þjónustar Swan Net Gundry en auk þess sér fyrirtækið stærstum hluta uppsjávarveiðiskipaflotans á Hjaltlandi fyrir veiðarfærum.  Á næsta ári bætast þrjú ný, stór uppsjávarveiðiskip í írska flotann og koma þau í stað eldri skipa. Það er því ljóst að Swan Net Gundry mun ekki skorta verkefni í náinni framtíð.

Gott aðgengi að efnum til veiðarfæragerðar

Líkt og önnur fyrirtæki innan Hampidjan Group fær Swan Net Gundry efnið í veiðarfærin frá Hampidjan Baltic í Litháen og toghlerana frá Thyboron í Danmörku.
,,Reynslan af því að fá veiðarfæraefnið frá Litháen er mjög góð. Þótt við séum með góðan lager af efni á Írlandi þá þarf stundum meira til og þá tekur það skamman tíma að fá það framleitt og sent sem okkur vanhagar um.  Litháen er hluti af Evrópusambandinu, flutningstími þaðan er skammur og kostnaðurinn við flutningana er hóflegur, að mínu mati,“ segir Martin Howley.

Please fill in the below details in order to view the requested content.