Index: 0

Hampiðjan - Ársreikningur 2013

6.03.2014

Lykilstærðir (fjárhæðir í evrum og samanburðartölur fyrra árs í sviga):

Rekstrartekjur jukust um 12% og voru 50,4 milljónir (45,2 milljónir).

Ebitda af reglulegri starfsemi, var 7,8 milljónir (7,8 milljónir).

Hlutdeild í hagnaði HB Granda var 3,2 milljónir (1,4 milljónir).

Hagnaður ársins var 7,6 milljónir (5,5milljónir).

Heildareignir voru 88,7 milljónir (81,6 milljónir).

Vaxtaberandi skuldir voru 24,2 milljónir (24,5 milljónir).

Eiginfjárhlutfall var 63% (60%).

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 50,4 milljónir og jukust um 12% frá árinu áður.  Innri vöxtur samstæðunnar var 3% og ytri vöxtur 9%, en Nordsötrawl í Thyboron í Danmörku bættist í samstæðuna í ársbyrjun 2013.   Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi var 12% af rekstrartekjum eða 5,9 milljónir en var 14% í fyrra eða 6,1milljón.  Fjármunatekjur ásamt hlutdeild í hagnaði HB Granda að frádregnum fjármagnsgjöldum voru 2,2 milljónir til tekna en voru 0,4 milljónir til tekna á fyrra ári.  Hagnaður ársins var 7,6 milljónir en var 5,5 milljónir árið 2012. 

Efnahagur

Heildareignir voru 88,7 milljónir í árslok.  Eigið fé nam 55,5 milljónum, en af þeirri upphæð eru 6,4 milljónir hlutdeild minnihluta í eigin fé Swan Net Gundry á Írlandi, Fjarðaneta á Íslandi og dótturfélags Cosmos Trawl í Danmörku.  Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í árslok 63% af heildareignum samstæðunnar. Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 24,2 milljónum og lækkuðu um 0,3 milljónir frá ársbyrjun.  

Aðalfundur

Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn föstudaginn 28. mars 2014 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst klukkan 16:00.

Tillaga stjórnar um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2014 verði vegna rekstrarársins 2013 greidd 0,54 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða kr. 262,8 milljónir. Arðurinn verði greiddur í viku 18.  Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 28. mars 2014, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 2. apríl.  Arðleysisdagurinn er 31. mars.

Fjárhagsdagatal

Hálfsársuppgjör; 29. ágúst 2014

Ársuppgjör 2014;  6. mars 2015

Jón Guðmann Pétursson, forstjóri:  „Síðasta ár var fjórða árið í röð sem samstæðan nýtur söluaukningar vegna innri vaxtar en tilkoma Nordsötrawl í Thyboron í byrjun ársins bætti einnig við ytri vexti.  Rekstrarhagnaður félagsins hefur verið góður á undanförnum árum en einnig hafa eignir í óskyldum rekstri, sem er að uppistöðu til 8,8% eignarhlutur í HB Granda hf., skilað félaginu góðri ávöxtun.  Staða Hampiðjunnar er sterk bæði er varðar rekstur og efnahag.“ 

Hægt er að nálgast ársreikning hér

Please fill in the below details in order to view the requested content.